Rólókaka með karamellukremi

by thelma

Mynd eftir Lárus Karl

Það er erfitt að lýsa þessari köku. Það er eitthvað í henni sem fær mann til að lygna aftur augunum og detta inn í draumaheim. Þessi kaka er í miklu uppáhaldi hjá mörgum af mínum vinum og fjölskyldumeðlimum, hún slær alltaf í gegn og klárast alltaf. Súkkulaðikakan er einstaklega blaut í sér með miklu súkkulaðibragði. Þetta er hin fullkomna afmæliskaka sem svíkur engan og á þeyttur rjómi mjög vel við.

Rólókaka með karamellukremi

Prenta
fyrir: 8 undirbúningstími: eldunartími:
Nutrition facts: 200 calories 20 grams fat
Rating: 5.0/5
( 1 voted )

Innihald

KAKA
60 g dökkt kakó
180 ml heitt vatn
1 dós af sýrðum rjóma
215 g smjör við stofuhita
330 g sykur
3 egg
3 tsk vanilludropar
250 g hveiti
1 tsk lyftiduft
½ tsk salt
1 pk súkkulaðibúðingur (óblandaður)

KARAMELLUKREM
450 g smjör við stofuhita
340 g flórsykur
2 tsk vanilludropar
¼ tsk sjávarsalt
70 ml karamellusíróp

SÚKKULAÐIGLJÁI
1 dl rjómi
115 g súkkulaði
2 msk hunang
2 msk síróp
1 tsk vanilludropar

Aðferð

 1. Hitið ofninn í 180°C og smyrjið tvö 24 cm hringlaga bökunarform.

 2. Blandið kakóinu og heita vatninu saman og hrærið vel, bætið svo sýrða rjómanum saman við og kælið.

 3. Hrærið smjör og sykur saman þar til blandan verður ljós og létt. Bætið einu eggi í senn út í og hrærið stuttlega á milli. Bætið vanilludropum saman við.

 4. Hrærið saman hveiti, lyftidufti, salti og innihaldinu úr súkkulaðibúðingnum. Blandið þurrefnunum saman við deigið ásamt súkkulaðiblöndunni smátt og smátt. Hrærið þar til allt hefur blandast vel saman.

 5. Hellið deiginu jafnt í formin og bakið í miðjum ofni í 20 mínútur eða þar til tannstöngull kemur hreinn upp úr miðju kökunnar. Kakan er örlítið blaut í sér út af súkkulaðibúðingnum. Kælið kökuna alveg.

Karamellukrem

 1. Hrærið smjörið þar til það verður ljóst og létt. Blandið flórsykrinum saman við, smávegis í einu og hrærið vel á milli.

 2. Blandið vanilludropum, sjávarsalti og karamellusírópi saman við og hrærið í 5 mínútur. Ef ykkur finnst kremið of þykkt er hægt að bæta smá mjólk saman við.

 3. Smyrjið kreminu á milli botnanna og yfir alla kökuna. Takið örlítið krem frá til þess að skreyta. Setjið kökuna í kæli á meðan þið gerið súkkulaðigljáann.

 4.  

Súkkulaðigljái

 1. Hitið rjómann í litlum potti yfir meðalháum hita þar til hann er orðin mjög heitur, hann á þó ekki að sjóða.

 2. Brytjið súkkulaðið niður í litla bita og setjið í skál. Hellið heita rjómanum yfir súkkulaðið og látið standa þar til rjóminn hefur brætt súkkulaðið. Þetta tekur rúmar 5 mínútur.

 3. Bætið því næst hunanginu, sírópinu og vanilludropunum saman við og hrærið vel.

 4. Kælið súkkulaðigljáann, hann þarf að kólna og þykkna aðeins áður en honum er hellt yfir kökuna svo hann bræði ekki kremið. Best er að hella súkkulaðigljáanum á kalda kökuna, hellið kreminu varlega yfir hana svo kremið leki fallega niður hliðar kökunnar. Setjið kökuna inn í ísskáp og leyfið gljáanum aðeins að storkna. Skreytið svo með restinni af karamellukreminu og setjið Rólóbita ofan á.

 

 

 

Skildu eftir athugasemnd

Þér gæti einnig líkað