Sítrónuískaka

by thelma

Einstaklega ferskur ís með unaðslegri karamellusósu fyrir þá sem vilja breyta til út af vananum og prófa eitthvað nýtt. 

 

 

Á mínu heimili eru ekki jól nema það sé gerður heimatilbúinn ís. Hér áður fyrr vorum við oftast með toblerone-ísköku sem er alltaf klassísk og góð. Síðustu ár hef ég þó reynt að búa til nýjan ís hver jól þó svo við eigum okkur alltaf einhvern uppáhalds ís. Ég geri ísinn oftast í hringlaga kökuformi og skreyti því það er svo gaman að bera fram fallegaskreytta ísköku á aðfangadag eða á gamlárskvöld. Í ár prófaði ég að gera sítrónuís með karamellu og piparkökubotni. Hún er öðruvísi, en fersk og góð með nóg af karamellu. Piparkökubotninn er nauðsynlegur fyrir þennan ís því piparkökurnar gera svo einstaklega gott bragð á móti sítrónubragðinu.

 

Sítrónuískaka
Recipe Type: ís
Author: Thelma Þorbergsdóttir
Prep time:
Cook time:
Total time:
Serves: 2 lítrar
Ingredients
  • Botn
  • 230 g piparkökur
  • 130 g smjör
  • Ís
  • 6 eggjarauður
  • 6 msk sykur
  • 170 g púðursykur
  • ½ tsk sítrónudropar
  • Börkur ef einni sítrónu
  • 6 dl rjómi
  • 200 g Pipp með karamellyfyllingu
  • ½ dl karamellu síróp
Instructions
  1. Setjið bökunarpappír í botninn á hringlaga smelluformi ca 23 cm að stærð. Setjið piparkökur í matvinnsluvél og hakkið þar til þær eru fínmalaðar.
  2. Bræðið smjör og blandið vel saman við.
  3. Setjið piparkökurnar í formið og þrýstið vel niður og upp á hliðar formsins. Gott er að nota glas til þess að þrýsta vel niður í botninn á forminu.
  4. Þeytið eggjarauður og sykur saman þar til blandan verður ljós og létt (ef þið viljið geti þið þeytt eggjahvíturnar og blandað þeim saman við í lokin eða nýtt þær í marengs).
  5. Blandið púðursykri varlega saman við með sleif. Setjið sítrónudropa og rifinn sítrónubörk saman við og hrærið vel.
  6. Þeytið rjóma og blandið honum saman við með sleif. Hrærið þar til allt hefur blandast vel saman. Skerið pipp með karamellufyllingu gróflega niður og blandið saman við ísblönduna.
  7. Hellið ísblöndunni í formið ofan á piparkökubotninn. Hellið karamellusírópinu óreglulega yfir ísinn og hrærið með hníf með því að snúa honum í hringi þar til karamellan hefur blandast ágætlega vel saman við ísinn.
  8. Frystið í lágmark 5 klst. Skreytið ískökuna með rjóma, piparkökum ogs karamellusírópi af vild.
  9. Þegar þið takið ísinn út er gott að láta hann standa í nokkra stund við stofuhita. Gott er strjúka hliðar formsins með volgri tusku áður en þið losið ískökuna úr forminu. Ísinn geymist vel í 3 mánuði í fyrsti.

 

Skildu eftir athugasemnd

Þér gæti einnig líkað