Hvað er betra en heimabökuð pizza með öllu því áleggi og ostum sem hugurinn girnist? Það að ákveða hvað á að vera í matinn getur stundum verið flókið en þegar ég tók upp á því að það væri alltaf heimabökuð pizza á föstudögum á okkar heimili var það mikill léttir. Núna þurfum við ekki að ákveða hvað á að vera í matinn á föstudögum þar sem jú, það er alltaf pizza! Krakkarnir setja álegg á sínar pizzur sjálf og taka þannig þátt í að útbúa kvöldmatinn sem þeim finnst mjög skemmtilegt og við eigum góða samverustund með þeim á meðan. Ég hef gert ótal uppskriftir að pizzadeigum og mörg hafa tekist ágætlega, þetta er þó það deig sem ég er hvað ánægðust með og er búin að nota aftur og aftur. Það er einstaklega gott og ég flet það frekar þunnt út og endarnir verða stökkir og góðir.
Krakkapizza
Olía, pizzakrydd, sósa, pepperóní, skinka og pizzaostur. Þau vilja svo bara pizzu sem er hringlaga svo ég vanda mig alveg einstaklega vel við að fletja þeirra pizzu út.
Okkar pizza
Olía, pizzakrydd, skinka, pepperóní, rauðlaukur, pizzaostur, rifinn piparostur og mozzarellaostur. Mér finnst svo mjög gott að setja rucola og hvítlauksolíu.
Við setjum alltaf pizzaostinn og piparostinn fyrst og svo áleggið. Mozzarellaostinn set ég síðan ofan á áleggið.
Mikilvægt er að hita ofninn vel áður en þið bakið pizzurnar, ég mæli með að kveikja á ofninum um 30 mínútum áður en þið bakið þær. Stillið á 250 gráður og bakið í 10 mínútur eða eins og þið viljið. Þeir sem nota pizzastein sem er einstaklega gott þurfa að hita steininn í ofninum í að lágmarki 30 mínútur áður en pizzan er sett á hann svo hann geri það gagn sem hann á að gera.
Ef afgangur er af pizzunni er um að gera að pakka sneiðunum vel inn og frysta.
380 ml heitt/volgt vatn (40-50 gráður) 1 msk sykur 1 pakki ger (18 g) 1 tsk salt 2 msk ólífuolía 450 g hveiti Hrærið saman vatn, sykur og ger í sál og látið standa í um 10 mínútur eða þar til gerið er farið að freyða. Setjið ólífuolíu, salt og hveiti saman við, gott er að setja hveitið smátt og smátt saman við. Hrærið með hnoðara í nokkrar mínútur og þar til deigið hefur sleppt skálinni. Smyrjið skálina með olíu að innan, setjið deigið ofan í og plastfilmu eða rakt viskastykki yfir skálina og látið deigið lyfta sér í klukkustund, best er þó þegar deigið fær nægan tíma til að lyfta sér. Takið deigið úr skálinni og hnoðið, hérna eru þið að berja deigið niður og ná öllu lofti úr deiginu svo gott er að hnoða ágætlega í stutta stund. Skiptið deiginu í tvennt, setjið viskastykki yfir deigið og látið lyfta sér örlítið lengur eða um 15 mínútur. Eftir að deigið hefur lyft sér í annað sinn er hægt að frysta það fyrir þá sem vilja eiga deig tilbúið í frysti. Rúllið deiginu út, gott er að stinga örlítið í það með gaffli áður en þið setjið álegg ofan á botnana. Hver og einn setur það sem hann vill ofan á sína pizzu en það sem ég geri alltaf og finnst gera pizzuna einstaklega ljúffenga er að ég set 1-2 msk. olíu ofan á hvorn botn fyrir sig og dreifi vel úr og krydda með pizzakryddi. Síðan er um að gera að setja það sem hverjum og einum finnst gott ofan á pizzu.Innihald
Aðferð