sara bernhardt

by thelma

Að baka sörur er ekki eins flókið og það hljómar, um að gera að bretta upp ermar og henda í eina uppskrift!

sara bernhardt

Prenta
fyrir: 60 stk undirbúningstími: eldunartími:
Nutrition facts: 200 calories 20 grams fat
Rating: 5.0/5
( 2 voted )

Innihald

Marengs

4 eggjahvítur

250 g flórsykur

½ tsk möndludropar

300 g möndlur, án hýði

 

Krem

6 eggjarauður

150 g sykur

150 ml vatn

370 g smjör við stofuhita

2 ½ tsk kakó

1 ½ tsk instant kaffi

 

Súkkulaðihjúpur

300 g dökkt súkkulaði

1 msk ólifuolía

Aðferð

Best er að byrja á því að gera kremið og kæla það svo á meðan þið gerið marengsinn. Gott er að kveikja á ofninum í 180 gráðu hita og setja smjörpappír á tvær bökunarplötur.

Krem

  1. Setjið vatn og sykur saman í pott yfir meðal háan hita og látið suðuna koma upp. Hrærið af og til, þetta tekur ca, 5-7 mínútur og þykknar og verður að sírópi þegar það kólnar. Takið pottinn af og kælið sírópið.
  2. Þeytið eggjarauður þar til þær verða ljósar.
  3. Bætið sírópinu rólega saman við og hrærið á meðan.
  4. Bætið smjörinu saman við, en mikilvægt er að smjörið sé við stofuhita. Hrærið þar til kremið er orðið slétt og fínt.
  5. Blandið kakói saman við ásamt instant kaffi, gott er að mylja kaffið aðeins svo það verði fínna.
  6. Hrærið þar til allt hefur blandast vel saman og kremið er slétt og fínt. Setjið kremið inn í ísskáp á meðan þið bakið marengsinn.

Kökur

  1. Hrærið eggjahvíturnar þar til þær freyða.
  2. Blandið flórsykri hægt og rólega saman við og hrærið þar til marengsinn verður stífur og stendur.
  3. Setjið möndludropa saman við og hrærið vel.
  4. Hakkið möndlurnar þar til þær verða fínt malaðar, blandið þeim saman við og hrærið rólega með sleif þar til allt hefur blandast vel saman.
  5. Hægt er að nota tvær skeiðar og setja ca. 1 msk í hverja köku á smjörpappír. Mér finnst best að setja hringlaga stút í sprautupoka eða klippa stórt gat á sprautupoka og setja marengsinn ofan í pokann og sprauta honum á plöturnar. Þannig verða þær fallegar í laginu og allar ca, jafn stórar.
  6. Bakið kökurnar við 180 gráðu hita í 10-12 mínútur.
  7. Kælið kökurnar alveg áður en þið setjið kremið á þær.
  8. Setjið kremið á kökurnar, ég set kremið á þá hlið sem snýr upp þegar ég tek þær út úr ofninum því þá standa þær svo vel. Gott er að setja 1-2 tsk af kremi, eða meira fyrir þá sem vilja.
  9. Mér finnst best að setja kremið einnig í sprautupoka og klippa stórt gat, sprauta svo kremi á hverja köku fyrir sig og slétta svo úr því með skeið eða spaða. Kælið kökurnar í stutta stund og undirbúið súkkulaðið.

Súkkulaðihjúpur

  1. Setjið súkkulaðið í skál ásamt olíunni og setjið inn í örbylgju í ca 30 sek. Gott er að hræra á milli og hita þar til súkkulaðið hefur náð að bráðna alveg.
  2. Dýfið hverri köku ofan í súkkulaðið.
  3. Geymið kökurnar í kæli eða frysti.

Skildu eftir athugasemnd

Þér gæti einnig líkað