Ok, hvar á ég að byrja? Ég elska lakkrís og bingókúlur eru það góðar að pokinn er fljótur að klárast. Þegar þessu er svo öllu blandað saman í eitt stykki ostaköku! Halló draumur! Þessi kaka fór á nokkra staði í smakk og fékk mjög góða dóma. Það góða við þessa köku er það að hún er mjög fljótleg og enginn bakstur!




Innihald
Botn
70 g smjör
24 stk Oreo kexkökur
Ostakaka
2,5 dl rjómi
500 g rjómaostur (gamli rjómaosturinn frá MS)
100 g flórsykur
70 g sýrður rjómi
150 g Bingó lakkrískúlur með mjólkursúkkulaði frá Góu
150 dökkt súkkulaði
2 msk rjómi
1 poki lakkrískurl
Toppur
½ lítri rjómi
Súkkulaðisósa
1 kassi af lakkrískonfekti
Aðferð
- Gott er að byrja á því að bræða bingókúlurnar í potti undir lágum hita ásamt 2 msk af rjóma. Þegar þær eru alveg að verða bráðnaðar þá bæti þið súkkulaði saman við og hrærið þar til allt er orðið slétt og fínt.
- Hakkið Oreo kexkökur í matvinnsluvél, bræðið smjör og hrærið vel saman.
- Setjið smjörpappír í botninn á hringlaga smelluformi (ca 23 cm) og þrýstið kexblöndunni í botninn. Gott er að nota botninn af glasi til þess að þrýsta niður og látið kexið aðeins fara upp á kanta formsins.
- Setjið formið inn í frysti á meðan þið undirbúið ostakökuna.
- Þeytið rjóma þar til hann er orðin stífur og stendur, passið ykkur þó að þeyta hann ekki of mikið og setjið til hliðar.
- Hrærið rjómaost þar til hann verður sléttur og fínn.
- Bætið sýrðum rjóma og flórsykri saman við og hrærið vel saman.
- Hellið því næst bingókúlu blöndunni saman við og hrærið þar til allt hefur blandast vel saman.
- Bætið lakkrískurli saman við og hrærið saman með sleif.
- Hellið ostakökunni ofan á oreo botninn og kælið kökuna í 4-5 klst.
- Skreytið með þeyttum rjóma, súkkulaðisósu og lakkrískonfekti.
- Geymið kökuna í kæli þar til hún er borin fram.